Ein á báti  

Eg hef fengið af því nóg,
oft með sára lófa,
út á lífsins ólgusjó
ein á báti að róa.

Sjaldan hefir lognblíð lá
létt á þreyttum mundum,
það hefir gefið oftast á
og yfir gengið stundum.

Eg hef líka orðið mát
og undan látið skríða.
Enginn veit, hvað einn á bát
á við margt að stríða.

þegar ég eygði engin lönd
og ekkert fann mér skýli,
þá hefir drottins hjálparhönd
haldið bát á kili.

Þú, sem elskar alla menn
og allra greiðir veginn,
lofaðu mér að lenda senn
við landið hinum megin.

Fyrir handan feigðarströnd,
fjarri sorg og kvíða,
segja þeir ennþá óbyggð lönd
úti í geimnum víða.

Þar mun eitthvert eyðisvið
öndu fyrir mína.
Það er aldrei vandgert við
vesalinga þína.

Engan heimta ég Edensskóg
eða dýrðarheima.
Lof mér bara að lifa í ró
og liðnum tíma gleyma.

Herdís Andrésdóttir (1852-1939)

 
   
 
 
  English version, click here... Þakkir Heimildir (c)2005 Minjasafn Reykjavíkur