Björg C. Blöndal lýkur doktorsprófi frá Sorbonne.  

Björg Þorláksdóttir Blöndal hlaut doktorsnafnbót frá Sorbonne háskóla í París 1926 og var hún fyrsti íslenski kvendoktorinn og fyrsti Íslendingur sem varð doktor frá Sorbonne. Ritgerð Bjargar fjallaði um lifseðlisfræðilegan grundvöll eðlishvatanna. Björg Caritas Þorláksdóttir fæddist 1874 í Húnavatnssýslu. Hún stundaði nám í Kvennaskólanum í Ytri-Ey og kenndi síðan við sama skóla. Björg fór til Kaupmannahafnar og tók þar stúdentspróf og lagði síðan stund á málfræði og heimspeki við Kaupmannahafnarháskóla og lauk cand.phil. prófi 1902. Björg giftist Sigfúsi Blöndal en þau hjónin unnu að gerð Íslensk danskrar orðabókar; Blöndals-orðabók, árum saman. Árið 1920 hóf Björg háskólanám að nýju og lagði nú stund á lífeðlisfræði og stærðfræði. Doktorsvörn Bjargar fór fram í París 17. júní 1926 og vakti mikla athygli. Þrjátíu og fjögur ár liðu þar til íslensk kona var sæmd doktorsgráðu en það var Selma Jónsdóttir listfræðingur.

Björg Einarsdóttir: Úr ævi og starfi íslenskra kvenna I. Reykjavík 1984. bls. 172-194.

 

 
   
 
 
  English version, click here... Þakkir Heimildir (c)2005 Minjasafn Reykjavíkur