Rauðsokkur og Forvitin rauð  

Árið 1970 tók hópur kvenna þátt í 1. maí göngu verkalýðsfélaganna og báru þær stóra styttu af konu með slagorðunum: Manneskja – ekki markaðsvara. Um haustið var Rauðsokkahreyfingin stofnuð formlega. Baráttumálin voru mörg en hreyfingin vildi opna umræðu um jafnrétti, augljóst og dulið misrétti og kúgun kvenna. Rauðsokkur ræddu opinskátt um kynfræðslu og fóstureyðingar, þær börðust gegn fegurðasamkeppnum og vöktu athygli á því að konur voru notaðar sem markaðsvara. Rauðsokkur notuðu ýmsar leiðir til að koma skoðunum sínum á framfæri, þær voru með útvarpsþætti og gáfu út tímaritið Forvitin rauð.


Úr Forvitin rauð:

„Ég er líka kona. Ég finn það á hverjum degi, hverri mínútu. Það er vont að vera kona, bölvuð kvöð. Vinna daginn út og daginn inn. Þræla fyrir sultarlaunum. Verða fyrir árásum vegna vanrækslu á uppeldi barna minna. Sjá fjölskyldunni og heimilinu fyrir mat, hreinum fötum og hýbýlum. Hafa ekki tíma til að brjótast undan okinu. Þola sífellt háð um vitundarstig mitt og systra minna. Horfa up á líkama minn gerðan að söluvöru, auglýsan til ánægju, mismotaðan í augunarskyni. Heyra fólk lýsa vanþóknun sinni á baráttu kvenna. Heyra jafnréttinu hampað í öðru hverju orði stjórnmálamanna. Láta glepjast af skruminu og gerviþörfunum sem haldið er að konum. Vita að maður fær ekki
rönd við reist nema með samstilltu átaki margra. Vita, að tilveran er barátta, en ekki dans á rósum, óstöðvandi vandamálafjót, sem bitnar hart á mér og systrum mínum. Vera enn þann dag í dag í þjónust þeirra, sem deila og drottna. Ertu ekki fullviss um að ég er manneskja? “

Forvitin rauð , blað Rauðsokka, 1976. 1. tbl. Bls. 6.

Forsíða..Forvitin rauð , blað Rauðsokka, 1 blað, 1972. timarit.is Landsbókasafn - Háskólabókasafn.

 
   
 
 
  English version, click here... Þakkir Heimildir (c)2005 Minjasafn Reykjavíkur